Skírn

Í heilagri skírn er skírnþegi tekinn inn í kirkju Krists. Í hinni evangelisk – lúthersku kirkju, sem Þjóðkirkjan er hluti af, er algengast að barn sé skírt meðan það enn er ómálga. Samkvæmt fyrirmælum Jesú Krists er barn skírt til nafns föður og sonar og heilags anda. Það er helgað Guði með Orði hans og bæn og ausið vatni.

Skírnin

Hver er merking skírnarinnar?

Þakkir fyrir barnið

Við þökkum Guði fyrir barnið og biðjum Guð að vera nálægt því í öllu lífi þess. Barnið er blessað og tekið í samfélag kristinna og söfnuð kirkjunnar.Viltu bóka skírn? Hafðu þá endilega samband við kirkjuna þína og talaðu við prestinn þar, kirkjan tekur ávallt vel á móti þér.

Finndu sóknarkirkjuna þína: Sóknir

Tákn skírnarinnar

Hvítur skírnarkjóll

Mörg börn eru skírð í hefðbundnum skírnarkjól. Hvíti liturinn er hátíðarlitur kirkjunnar og hvíti skírnarkjóllinn er eins og fermingarkyrtill og brúðarkjóll tákn um, að sá sem ber hann er blessaður, elskaður og nýtur náðar Guðs.

Skírnarkjóllinn er alltof síður á barnið. Það táknar að barnið á að vaxa í skírn sinni og trú á Guð því fyrirheit skírnarinnar gildir allt lífið.

Tákn krossins

Í skírninni er teiknaður kross á enni og brjóst barnsins, kross yfir hugsunina og kross yfir tilfinningar. Líf barnsins sem einstaklings er blessað með krossmerkinu. Barnið verður barn Guðs. Krossinn er einnig tákn kristninnar - að lífið sigrar dauðann.

Í skírninni er krossinn tákn um að hinn skírði mun eftir dauða sinn rísa upp til eilífs lífs.

Tákn kærleikans

Kristnin sér lífið með raunsæjum augum. Það er margt í lífinu sem eyðileggur og ógnar þrátt fyrir að við séum skírð. En kristin trú segir að við eigum ekki að láta undan eða gefast upp gagnvart því illa. Við höfnum hinu illa og treystum á kærleikann, að hann sigri. Skírnin boðar sterkt að kærleikurinn sigrar.

Trúarjátningin

Faðirinn og sonurinn

Í fyrsta lið trúarjátningarinnar játum við trúna á Guð sem skapara. Við játum því að við treystum því að heimurinn og lífið sjálft sé frá Guði og allt var í upphafi skapað gott.
Í öðrum lið trúarjátningarinnar játum við trúna á Jesús, líf hans og dauða og upprisu.
Þriðji liður trúarjátningarinnar fjallar um nútímann. Heilagur andi merkir, að Guð er með okkur í dag og alla daga og er með hverri manneskju alltaf.

Vatn táknar fæðingu, líf og hreinsun

Skírnin er endurfæðing. Barnið er fætt sem barn foreldra sinna til samfélags fjölskyldu. Í skírninni endurfæðist barnið sem Guðs barn og til samfélags allra kristinna manna.

Kærleikshendur

Barnið er borið til skírnar af kærleikshöndum. Prestur leggur sína hönd á höfuð barnsins þegar það er blessað, sem tákn um að Guð blessar það. Það sem skírð manneskja getur ekki borið sjálf, það leggjum við í hendur Guðs.

Barnið er blessað með orðunum: Drottinn varðveiti inngang þinn og útgang héðan í frá og að eilífu. Það þýðir, að Guð vill halda hendinni yfir barninu og að Guðs hendur munu leiða barnið allt líf þess - og á sínum tíma leiða það út úr lífinu og inn í eilífa lífið.

Skírnin í sögulegu samhengi

Í fornkirkjunni var fólk skírt fullorðið. Áður en skírt var þurfti skírnarþeginn um tíma að fasta, biðja og læra um kristna trú. Lögð var áhersla á endurfæðingu fyrir lifandi skírn og djöflinum og öllu illu hafnað. Skírnarathöfnin var nokkuð öðruvísi en við þekkjum í dag, en margt þó með líku sniði.

Barnaskírn
Á fyrstu öldum kirkjunnar var farið að skíra börn. Í fyrstu var það eingöngu ef barnið var hætt komið eða deyjandi en svo verður barnaskírn siður og skírnarfontar verða minni en áður og í barnastærð.

Niðurdýfing
Fram til siðbreytingar varð það siður við skírn að að dýfa barninu eða hinum fullorðna alveg niður í vatnið. Í mörgum miðaldarkirkjum eru þess vegna skírnarfontar úr steini, þar sem börnum er alveg dýpt ofaní vatnið.

Ausið yfir
Eftir siðbreytingu varð útbreiddara að ausa aðeins yfir höfuð barnsins. Það var alltaf leyft, sérstaklega ef um skemmri skírn var að ræða fyrir deyjandi barni. Eftir að sá siður varð algengari komu skírnarskálarnar sem settar voru efst í skírnarfontinn.

Skírnarklæði

Þegar ekki þurfti lengur að afklæða barnið til að skíra það, hófst sá siður að gefa barninu falleg skírnarklæði til að vera í. Upprunalega var litla skírnarbarnið vafið einhvers konar klæði, sem hjá hinum efnaðri í Evrópu var oft úr silkiefni og útsaumað og með blúndum og slaufum og með fylgdi lítil húfa.

Skírnarkjólar
Frá lokum 18. aldar(17.tallet) jókst áhersla á að börn ættu að vaxa upp og þroskast frjáls. Það þýddi að smábörn voru ekki lengur vafinn teppum til að halda á þeim hita, heldur fengu kjóla sem þau gátu hreyft sig í. Þannig breyttist skírnarklæðið smám saman og varð að þeim hvíta skírnarkjól sem við þekkjum í dag. Sumar fjölskyldur eiga sinn skírnarkjól sem börnin eru skírð í, skírnarkjólar sem mikil alúð hefur verið lögð í að sauma eða prjóna/hekla og hafa sem fallegastan.

Hvítur litur
Hvíti liturinn varð snemma tengdur skírninni. Það er vegna frásagnarinnar í Matteusarguðspjalli 17.2.
Valdsmenn voru klæddir í blóðrauðan purpura, en hinir réttlátu og hreinu klæddust hvítu. Elstu listaverk og mósaikmyndir sýna að prestar og þau sem voru nýskírð klæddust hvítu.
Í Viborg í Danmörku fannst fyrir nokkrum árum elstu skírnarklæðin, sem var léreftsskyrta, sem var samanbrotin og sett í hornstein á nýbyggðu húsi í kringum árið 1000. Fyrir daga kristni, var settur peningur eða gull í hornsteininn, en hinn nýskírði setti í stað þess skírnarkjólinn sinn til að vernda húsið fyrir eldi og stormi.

Guðfeðgin

Í frumkirkjunni voru guðfeðgin eins konar trygging fyrir þann sem leitaði inngöngu í kristna kirkju. Á þeim öldum sem kristnir menn voru ofsóttir, skipti máli að vera varkár þegar teknir voru inn nýjir meðlimir. Guðfeðgin fengu það hlutverk að halda í hönd hins nýskírða og leiða áfram í trúnni.
Síðar voru guðfeðgin (oftast guðfeður) sem eins konar foreldrar. Venjan varð að nefna guðfeður við barnaskírn sem gætu tekið að sér foreldrahlutverk og kenna barninu um kristna trú, ef foreldranir myndu deyja. Á Íslandi voru það oft efnameiri menn sem tóku að sér að vera guðfeður. Í dag velja aðstandendur barninu skírnarvotta. Skírnarvottar heita einnig guðfeðgin og eru aldrei þau aldrei færri en tvö, karl og kona (eins og felst í orðinu), en mest geta verið fimm. Æskilegt er að í það minnsta eitt guðfeðginana sé á þeim aldri að það geti fylgt barninu eftir til fullorðinsára. Foreldrar og guðfeðgin játa trúna fyrir hönd barns síns og skuldbinda sig þar með til að ala barnið upp í kristinni trú.

Sameiningartákn

Skírnin tengir kristnar kirkjur innbyrðis. Þrátt fyrir ólíkar áherslur kirkudeildanna í ýmsum efnum hafa þær flestar náð samkomulagi um að viðurkenna skírn hinna sem sameiginlegan grundvöll.

Algengir skírnarsálmar
          • 252: Ó, blíði Jesús, blessa þú
          • 250: Til mín skal börnin bera
          • 251: Andi Guðs sveif áður fyr
         • 253: Guð faðir sé vörður og verndari þinn
         • 255: Ég grundvöll á, sem get ég treyst
           • 26: Nú gjaldi Guði þökk
         • 585: Full af gleði yfir lífsins undri
         • 503: Ó, Jesús, bróðir besti
         • 504: Ástarfaðir himinhæða

Lestu um skírn í Biblíunni

Það eru þrjár mikilvægar sögur um skírn í Biblíunni

- Frásögnin af skírn Jesú (Matt 3.13-17)
- Þegar Jesús sagði. Leyfið börnunum að koma til mín (Mark 10. 13-16)
- Skírnarskipunin Síðustu orð Jesú til lærisveinanna um að fara út í heiminn og kenna, boða og skíra. (Matt 28.08-20)

Við skírn í þjóðkirkjunni er tvær seinni frásögurnar lesnar.

Þegar Jesús var skírður
Frásögnin af skírn Jesú er sögð á nokkrum stöðum í Biblíunni. Þær eru ekki alveg eins, en allar frásögurnar segja að Jesús hafi verið skírður af Jóhannesi skírar í ánni Jórdan. Eftir skírnina hafi svo himinninn opnast yfir Jesú. Rödd Guðs hljómar frá himni sem segir að Jesús sé hans elskaði sonur. Skírn Jesú er sú stund, þar sem ljóst verður að hann er sonur Guðs.


Leyfið börnunum að koma til mín

Næsta frásögnin fjallar um að einu sinni hafi nokkrir foreldrar komið með börnin sín og óskað eftir að Jesús snerti þau. Lærisveinarnir vildu ekki láta fólkið trufla og reyndu að reka það á brott. En Jesús varð reiður og sagði að börnin væru velkomin til hans. Hann lagði áherslu á að Guðs ríki væri barnanna og hann sagði að börnin sýndu hvernig við eigum að taka á móti Guðs ríki, opin og full trausts eins og lítið barn. Og Jesús lagði hendur yfir börnin og blessaði þau.

Skírnarskipunin
Þriðja frásagan fjallar um tímann eftir upprisu Jesú frá dauðum. Áður en hann yfirgaf lærisveina sína og þennan heim, safnaði hann þeim saman og kvaddi þá. Í Matteusarguðspjalli er það sem við nefnun skírnarskipunin eða kristniboðsskipunin. Jesús boðar lærisveinunum að fara út í heim og gera allar þjóðir að lærisveinum hans. Og lærisveinarnir eiga að skíra þá í nafni Föður, Sonar og Heilags anda. Og lærisveinarnir eiga að kenna mönnum að halda allt það sem Jesús boðaði.