Ferming

Ferming er staðfesting. Hún er staðfesting þess að viðkomandi er skírður og vill játast gjöf og köllun skírnarinnar og staðfesting kirkjunnar á því að hinn skírði hafi hlotið uppfræðslu í grundvallaratriðum trúarinnar.

Fermingar fara fram í flestum söfnuðum þjóðkirkjunnar ár hvert.

Hafðu samband við kirkjuna þína með allar spurningar um ferminguna, við tökum vel á móti þér.

Hér getur þú fundið þína kirkju, Sóknir

 

 Ferming þýðir staðfesting því í fermingunni staðfestir barnið skuldbindingu foreldra og guðfeðgina í skírnarathöfninni. Það fer með trúarjátninguna, vinnur fermingarheit og þiggur fyrirbæn og blessun. Fermt er við messu og til þess að öðlast rétt til að mega fermast stundar fermingarbarnið fermingarfræðslu hjá prestinum sínum eða fermingarfræðara. Það er misjafnt eftir kirkjum hvernig fermingarfræðslan fer fram en hún gengur alltaf út á að fást við upplifun fermingarbarnanna, fræðslu, samtöl um kristna trú og stóru spurningarnar í lífinu.

Heimild er fyrir því að barn megi vera til altaris með foreldrum sínum frá unga aldri, en yfirleitt er það við ferminguna eða á meðan fermingarfræðslan stendur yfir sem barn neytir í fyrsta sinn kvöldmáltíðarsakramentisins.
,,Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið, sem þú varst kallaður til og þú játaðist með góðu játningunni í viðurvist margra votta I.Tm 6.12