Biskupsstofa

Biskupsstofa er embættisskrifstofa Biskups Íslands og skrifstofa Kirkjuráðs og kirkjuþings. Hún gegnir margháttuðu hlutverki við stjórnun og reikningshald kirkjunnar, og veitir sóknum, sjóðum og stofnunum kirkjunnar ýmsa þjónustu.

Biskupsstofa

Hann starfrækir skrifstofu fyrir biskupsembættið – Biskupsstofu – í því skyni að rækja þjónustuskyldur sínar og eftirlitshlutverk. Biskupsstofa gegnir margháttuðu hlutverki við stjórnun og reikningshald kirkjunnar, og veitir sóknum, sjóðum og stofnunum kirkjunnar ýmsa þjónustu. Biskupsstofa annast almennt fyrirsvar vegna Þjóðkirkjunnar og sameiginlegra mála hennar, samskipti og samstarf við hinar ýmsu stofnanir svo og erlend samskipti. Biskupsstofa sinnir fræðslumálum, málefnum er varða kærleiksþjónustu, guðfræði og þjóðmál, kirkjutónlist og helgihald, upplýsingamál og samkirkjutengsl. Hlutverk Biskupsstofu er umfram allt að hvetja og styðja aðrar stofnanir kirkjunnar, presta og sóknir, til að sækja fram í starfi og þjónustu. Auk þess annast Biskupsstofa starfsmannahald, þ.m.t. vegna presta þjóðkirkjunnar, fjármálaumsýslu og margvíslega stjórnsýslu.

Framtíðarsýn

Þjóðkirkjan vill þróa starfshætti og vinnubrögð á vettvangi safnaða sinna og stofnana sem geri henni kleift að sækja fram með fagnaðarerindið og smíða brýr milli fólks og menningarheima í fjölþættu samfélagi nútímans. Biskupsstofa vill örva rannsóknir á kirkju, trú og lífsskoðunum í samtímanum, stöðu og hlutverki kirkjunnar, og stuðla að þróun kirkjustarfs og þjónustu. Minna þarf á og efla fræðslu um skuldbindingar þjóðkirkjunnar varðandi mannréttindi og jafnan rétt karla og kvenna.